Mynd af heimasíðu Auðar. https://auduromarsdottir.com

Með breytilegri brennivídd

Um sýningu Auðar Ómarsdóttur, Zoom

Listamenn gera sér jafnan efnivið úr sömu grunnþemunum eða geðhrifunum, sem birtast stundum sem andstæðupör – lífsgleðin vs. dauðinn, ringulreið vs. regla, hið hversdagslega vs. hið háleita og rómantíska, hið móralska vs. hið siðspillta – en kalla hvert til annars jafnvel þegar þeim er ekki sérstaklega þannig uppstillt. Lífsgleðin minnir alltaf á dauðann, reglan alltaf á ringulreiðina og svo framvegis. Þá eru andstöðupörin ekki alltaf í samræmi við klassíkina – hið móralska má til dæmis spegla í ringulreiðinni og hið háleita í lífsgleðinni.

Á nýrri sýningu Auðar Ómarsdóttur, Zoom í Gallerí Úthverfu á Ísafirði, getur að líta annars vegar ljósmyndir sem listamaðurinn fann á filmum sem ókunnugt fólk hafði tekið en ekki framkallað – „hafði gleymt því að filmurnar voru í vélunum sem síðan enduðu á mörkuðum, hérlendis og erlendis“, líkt og segir í sýningarskrá – og hins vegar málverk og skúlptúra sem eru unnin upp úr ljósmyndunum. Þannig birtist okkur til dæmis ljósmynd af fullorðnu fólki í mikilli lífsgleði – það er brennivínsflaska á borðinu, nokkrar bjórdósir, misfull og misstór glös, kona ein situr við þetta veisluborð og horfir á aðra sem stendur við borðsendann með hendur á lofti, einsog hún sé að fagna guði. Á bakvið hana er uppstoppuð skjaldbaka sem Auður hefur endurskapað – sennilega úr einhvers konar leir – og hengt á annan vegg.

Á annarri ljósmynd má sjá hóp karlmanna standa úti undir beru lofti, ég ímynda mér af einhverjum orsökum að þetta sé við íslenskan sveitabæ, það er sennilega haust eða vor, snjólaust og karlmennirnir eru misvel klæddir við iðju sína: að láta borðalagða og blómum skreytta líkkistu síga niður til jarðar. Einn mannanna snýr baki í myndavélina, hann er álútur í dökkbláum kraftgalla með endurskinsmerkjum og annar af tveimur (þeir eru sex talsins) sem tekur ekki þátt í að slaka kistunni. Í miðju galleríinu er skúlptúr af þessum manni – sem er ekkert nema álútur og andlitslaus kraftgalli, eins konar sorgartótem. 1

Myndirnar eru annars úr partíum, fjölskyldufríum, flippi o.s.frv. og samsvara sér fullkomlega í áðurnefndum klassískum efnivið listamanna – og vekja sams konar geðhrif. Dauðinn/gleðin eru þar mest áberandi, en sömuleiðis rómantíkin, hið idyllýska, og kaosið. Listamenn eru listamenn alltaf þegar þeir gera list – þeir þurfa ekki að hafa farið í skóla – og birtingarmynd þarfar okkar til þess að ramma inn vissa hluti tilvistar okkar og veita þeim samhengi er ekkert öðruvísi þótt við séum „bara“ að smella af nokkrum myndum, en ekki að úthugsa flóknari smíðar.

Auður velur stundum að mála litlar myndir af fólkinu en er jafn gjörn á að taka eitthvað óbjekt af vegg – auk áðurnefndrar skjaldböku má nefna innrammaðan Liverpool búning sem kallast svo á við svarta peysu með áletruninni Tour58, sem er við hliðina á henni, en þeirri peysu klæðist drengur sem mér er sagt að sé að taka þátt í hárgreiðslukeppni í heimavistarskóla.

Aðferð Auðar – að nota óframkallaðar filmur ókunnugs fólks – er auðvitað mjög trespassíf, svo það jaðrar við að vera klámfengið. Hún ryðst inn í einkalíf fólks, sem það hafði í einhverjum skilningi grafið yfir, með því að leyfa myndunum aldrei að verða til, með því að hunsa filmurnar. Þetta eru samtímamenn hennar (a.m.k. ein myndanna er frá 2005) og í einhverjum tilvikum þekkjanlegir – Ísland er lítið land.

Auður tekur viðkvæm augnablik – fullt fólk í miðri grettu og hamsleysi, eða þögulli og þungri sorg yfir dauðanum – framkallar þau, rammar og hengir upp öllum til sýnis. Og síðast en ekki síst tekur hún ótilbúið höfundarverk annars fólks og birtir „sem sitt“ 2 – sem er hugsanlega brot á bæði sæmdarrétti höfundarréttarlaga 3 og fjárhagslegum notkunarrétti. 4

En gæði verkanna hvíla líka á þessum háska, þessu forboðna innliti í heim annarra og með því að gera myndir og skúlptúra utan sjálfra ljósmyndanna líkamnar Auður bæði horfinn veruleika, estetíserar hann og kólóníserar, á sama tíma og hún býður okkur dýpra innlit og hluta af sínu eigin perspektífi – lánar okkur augun í sér í andartak. Verkin eru alls ekki kaldranaleg, og mættu sennilega ekki við því, heldur hlý og nostursöm – og ná að vissu leyti að umfaðma skrítnasta andstæðuparið af þeim öllum, háskann og hversdaginn, og súmma inn á það. Zoom er í senn sprengfull af kærleika og gersamlega siðlaus.

Zoom Auðar Ómarsdóttur stendur til 25. febrúar í Gallerí Úthverfu, Aðalstræti 22 á Ísafirði.

   [ + ]

1. Það er ómögulegt að ganga framhjá stórum galleríglugganum í Aðalstrætinu án þess að hrökkva við í þeirri trú að það sé einhver inni í galleríinu, einhver lítill maður – því hann er ekki stærri en sex ára barn – jafnvel um miðja nótt, og hann vekur alltaf með manni einhverja ónotakennd.
2. Að sjálfsögðu tekur hún fram að ljósmyndirnar hafi hún ekki tekið, það er lykilatriði í konsepti sýningarinnar, en sem listaverk birtast þau „sem hennar“.
3. „Önnur hlið höfundaréttarins er sú sem snýr að sæmd höfundar og bannar að breyta verki hans eða afskræma og er þessi réttur ekki framseljanlegur. Í þessu felst ennfremur skylda þeirra sem birta verk að geta nafns höfundar og heitis verks. Sæmdarrétturinn gildir um öll verk án tímatakmörkunar.“ – af heimasíðu Myndstefs.
4. Hér mætti t.d. minnast dómsáttar vegna sjálfsmyndar sem indónesískur makaíapi tók á vél breska náttúrulífsljósmyndarans David Slater – en Slater var lögsóttur af PETA fyrir að brjóta á höfundarrétti apans með því að birta myndirnar í eigin nafni, og þiggja fyrir það greiðslur, og samdi um að greiða hluta af höfundarréttargreiðslunum til náttúruverndarsamtaka.