Frásagnarhátturinn er vissulega óvenjulegur, sögumenn eru ýmsir, frásögnin er stundum í þriðju persónu, fyrstu persónu fleirtölu og jafnvel í annarri persónu eintölu og er þá lesandi ávarpaður sem tiltekinn karakter í sögunni, sem er sérstakt, en gengur skemmtilega upp í því samhengi sem höfundur hefur skapað. Hann, Sverrir Norland, skýtur líka upp kolli undir eigin nafni. Lesandinn verður reyndar að semja snemma við höfundinn um að taka þátt í frásagnarleikjum hans, því þeir útiloka „gjörsamlega“ raunsæjan lestur á verkinu og það er ágætur díll, verð ég að segja, því hann lofar að fjalla á ófyrirsjáanlegan hátt um býsna fyrirsjáanlega hluti, því það er nú eins og maður veit á miðjum aldri, fátt fyrirsjáanlegra en gerðir og þarfir ungs fólks sem alltaf hefur haldið að heimurinn sé nýr af því það er sjálft nýtt.